Lífsleikni

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir lífsleikni þannig: "Lífsleikni er geta til að laga sig að mismunandi aðstæðum og breyta á jákvæðan hátt. Sú geta gerir okkur kleift að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs."

Helstu færniþættir lífsleikninnar eru að taka ákvarðanidr og leysa málin, skapandi og gagnrýnin hugsun, góð tjáskipti og samskiptahæfni, sjálfsvitund og hæfileiki til að sýna samhyggð, takast á við tilfinningar, álag og streitu.

Í öllu okkar starfi með börnunum þurfum við að vera meðvituð um þessa færniþætti og leiðbeina börnunum. Það að efla sjálfstæði þeirra og samvinnu í gegnum leik, ásamt því að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu er mikilvægt til að börnin nái góðum tökum á lífsleikninni.

Það hvernig við bregðumst við umhverfi okkar, leysum ágreining, vinnum úr tilfinningum okkar og lesum úr tilfinningum annarra skiptir höfuðmáli í því hvernig okkur gengur í leik og starfi og reyndar lífinu í heild. Börnin læra lífsleiknina best í hér og nú aðstæðum. Hinn fullorðni er besta fyrirmyndin en einnig læra þau af hvort öðru og þeirri reynslu sem þau byggja upp í samskiptum. Hinn fullorðni gegnir stóru hlutverki í að byggja upp reynslu barnanna, hann þarf að setja orð á tilfinningar, þar sem orðaforði og skilningur barnanna er oft takmarkaður varðandi líðan. Einnig þarf hinn fullorðni að rifja upp með börnunum hvernig þau gerðu síðast þegar þeim leið svona og hvernig það hafi gegnið. Mikilvægt er að hinn fullorðni sé til staðar þegar ágreiningur er á milli barnannan og hjálpi þeim að setja orð á tilfinningarnar, hversvegna þeim líði svona og leiða þau áfram með spurningum eins og hvað ætli sé hægt að gera svo þeim líði aftur vel og séu sátt. Hafa ber í huga að allar tilfinningar eru viðurkenndar en það skiptir máli hvernig við vinnum úr þeim.