Leikurinn

Börn á leikskólaaldri eru fljót að detta inn í leik við hvaða aðstæður sem er. Þau geta fundið leik í öllu, allsstaðar og er það frábær eiginleiki sem vert er að efla. Í leik vinna börn úr reynslu sinni, prófa getu sína og gera tilraunir. Í leik getur allt gerst, hlutir lifna við, veruleikinn breytist og börnin og leikfélagarnir fá ný hlutverk. Þar sem tvö eða fleiri börn eru að leik fá þau að prófa að stjórna og vera stjórnað á jafnræðisgrundvelli. Í leik læra þau mikilvægi samvinnunnar.

Við hinir fullorðnu erum kennarar barnanna og fyrirmyndir þeirra, þau læra mest með því að sjá hvernig við framkvæmum hlutina, leysum ágreining, ræðum og vinnum saman. Við eigum að vera til staðar, fylgjast með leik barnanna og samskiptum þeirra. Með því að vera nálægt börnunum forðum við þeim frekar frá slæmum samskiptum og árekstrum (hjálpum þeim að leysa ágreining með opnum spurningum).

Oft er talað um umhverfið sem þriðja kennarann í leik og námi barna  og er þar verið að vísa til þess hvernig umhverfið er skipulagt. Á Bakkabergi er til dæmis lögð áhersla á heimilislegt og notalegt umhverfi. Þó nokkuð er af lifandi pottaplöntum, fiskabúr í miðrýmunum og glerskápur með efnivið úr fjörunum. Mismunandi leikefni er í boði fyrir börnin og bækur eru aðgengilegar. Rýmið er skipulagt þannig að börnin geti jafnt unnið og leikið sér í litlum og stórum hópum. Við erum einnig svo heppin að vera með glæsilega garða umhverfis skólanna og fjöruna stutt frá og má segja að þar séu virkilega öflugir kennarar á ferð.

  • Frjáls leikur inni - frjáls leikur barna er mikilvægur, inni í leikskólanum velja þau sér viðfangsefni og leika með það á eigin forsendum eða sameiginlegum forsendum leikfélaganna. Þar sem barnahópurinn er stór þá eru aðstæður fyrir leikinn skipulagðar. Á hverri deild er sett upp myndræn tafla þar sem sýnt er hvað er í boði hverju sinni og fyrir hve marga. Misjafnt er hvað er í boði og er markvisst reynt að stuðla að fjölbreytileika. Börnin setja nafn sitt fyrir neðan það viðfangsefni sem þau velja sér. Þar sem fyrirfram er ákveðið fyrir hve marga hvert viðfangsefni er, þá er ekki alltaf hægt að fá óskum sínum uppfyllt, en eftir 20 mínútur má skipta.
  • Frjáls leikur úti - við leggjum áherslu á að börnin fari út allavega einu sinni á dag. Ef veður er slæmt þá klæðum við okkur vel og erum bara styttra úti. Í útiverunni er mismunandi hvað er af leikföngum í boði, en alltaf er víðáttan og veðurhamurinn spennandi viðfangsefni.
  • Skipulagt starf - leikurinn er námsleið barnsins og því er hann rauði þráðurinn í öllu skipulögðu starfi. Í raun erum við að skapa ákveðnar aðstæður til að auka við reynslu og þekkingu barnsins. Þannig fá þau að gera tilraunir, skoða og rannsaka margskonar efnivið í gegnum skipulagt starf.