Fuglavernd

Efnisflokkur: Fuglavernd

 

Leikskólinn Bakkaberg er staðsettur á tveim stöðum, annarsvegar í Staðarhverfi í Grafarvoginum og hinsvegar við Kléberg á Kjalarnesi. Báðar starfsstöðvarnar eru staðsettar í miðri náttúruparadís þar sem garðfuglar heimsækja okkur, mófuglar spígspora á lóðunum, sjó- og vaðfuglar svamla í fjöruborðinu og hrafninn er aldrei langt undan. Við erum sem sagt með allt til alls til að virkja nemendur leikskólans til að gerast verndarar fugla, einnig höfum við verið með útinám Fjörulallar, það erum við! lengi í gangi.

Því var það í samstarfi við Fuglavernd að við sóttum um styrk til Barnavinafélagsins Sumargjafar til að fara af stað með tilraunaverkefnið Fiðraðir vinir okkar. Var meðal annars hugmyndin að börnin gerðust félagar í Fuglavernd, ásamt því að gerð yrði aðgengileg heimasíða sem sýndi þetta starf leikskólabarna og væri jafnframt hugmyndabanki fyrir aðra til að fara af stað með sambærilegt starf. Ekki gafst kostur á því að úr yrði sér heimasíða en sett voru saman nokkur stutt rit sem vonandi nýtist öðrum sem áhuga hafa á sambærilegu starfi með börnum og eru þessi rit undir tökkunum hér fyrir ofan.

Leikskólabörnin á Bakkabergi gerðust formlegir félagar í Fuglavernd þann 16.september 2011, á Degi íslenskrar náttúru. Þessi rit hér eru hluti af því verndarstarfi og er von okkar að fleiri sjái sér hag í því að opna augu barnanna fyrir fuglavernd og í leiðinni umhverfisvernd.

Útinám er stór liður í starfi okkar með börnunum á Bakkabergi og höfum við tekið þátt í margskonar verkefnum tengdu því.

Okkur finnst mjög mikilvægt að opna augu barnanna fyrir umhverfisvernd og fuglavernd. Því er unnið markvisst með þessa þætti, því það er trú okkar að því fyrr sem börn kynnast náttúrunni því meðvitaðri eru þau um að bera virðingu fyrir henni.

Það að börnin fá að vera viðurkenndir félagar í Fuglavernd finnst okkur sýna fram á að leikskólabörn eru virkir þjóðfélagsþegnar sem taka þátt í að vernda umhverfi sitt og þá fiðruðu vini sem deila því með okkur.